www.fgks.org   »   [go: up one dir, main page]

Hefja sölu á Xpeng á Íslandi

Vænghurðirnar á Xpeng P7 ættu að vekja athygli.
Vænghurðirnar á Xpeng P7 ættu að vekja athygli.

Samningar hafa náðst á milli kínverska bílaframleiðandans Xpeng og bílaumboðsins Unu ehf., sem er systurfélag bílaumboðsins Öskju, um sölu og dreifingu þessara áhugaverðu rafbíla á Íslandi.

Í tilkynningu kemur fram að Xpeng hafi notið vaxandi vinsælda í Evrópu undanfarin ár. Höfuðstöðvar félagsins í Evrópu eru í Amsterdam í Hollandi en söluumboð hafa verið opnuð í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Í dag eru þrjár gerðir af bílum í boði hjá Xpeng. Fyrst ber að nefna fólksbílinn P7 sem er fáanlegur með fjórhjóladrifi og hefur allt að 597 km drægni. Þá er G9 rúmgóður fjórhjóladrifinn rafjeppi með allt að 570 km drægni og loks jepplingurinn G6 sem væntanlegur er á Evrópumarkað seinna í sumar, einnig fáanlegur fjórhjóladrifinn og með allt að 550 km drægni auk þess að búa yfir allt að 1.500 kg dráttargetu.

Xpeng G6 er væntanlegur á Evrópumarkað síðar á árinu og …
Xpeng G6 er væntanlegur á Evrópumarkað síðar á árinu og hefur m.a. 1.500 kg dráttargetu.

Xpeng framleiðir einungis rafmagnsbíla og fjárfesti þýski bifreiðarisinn Volkswagen Group nýlega í félaginu fyrir 700 milljónir dala. Á síðasta ári seldi Xpeng 150.000 bifreiðar og stefnir félagið að því að auka framleiðslugetu sína upp í allt að 500.000 bíla á ári. Er gaman frá því að segja að Xpeng hefur vakið athygli fyrir þróun fljúgandi bíla sem eru þó ekki enn orðnir að veruleika.
Bílaumboðið Una er að öllu leyti í eigu Vekru sem er einnig móðurfélag Öskju, og mun umboðið opna Xpeng sýningarsal á Vínlandsleið 6-8 með haustinu.
„XPENG er gríðarlega spennandi framleiðandi sem við höfum verið að skoða í langan tíma,” segir Þorgeir R. Pálsson framkvæmdastjóri Unu í fréttatilkynningu félagsins. „Vörulína þeirra passar vel inn á íslenskan markað þar sem áherslan er lögð á millistóra og stóra fjórhjóladrifna jepplinga.“

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Xpeng.

Frá vinstri: Jens Olsen framkvæmdastjóri Xpeng í Evrópu, Jónas Kári …
Frá vinstri: Jens Olsen framkvæmdastjóri Xpeng í Evrópu, Jónas Kári Eiríksson Framkvæmdastjóri vörustýringar, Jón Trausti Ólafsson forstjóri Vekru, Brian Gu aðstoðarforstjóri Xpeng og Þorgeir R. Pálsson framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Unu.