www.fgks.org   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Breiðholt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 8. maí 2021 kl. 13:23 eftir Þjarkur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. maí 2021 kl. 13:23 eftir Þjarkur (spjall | framlög) (Færi athugasemdir í tilvísanir.; Óalgengt að nefna staka tónlistarskóla.)
Leikvöllur í Breiðholti.
Kort sem sýnir Breiðholtið.

Breiðholt er hverfi í austurhluta Reykjavíkur með um 21 þúsund íbúa. Nafnið er dregið af bænum Breiðholt, sem staðsettur var þar sem nú er Skógarsel. Hverfið skiptist í Efra-Breiðholt (Fell, Berg, Hólar og Seljahverfið) og Neðra-Breiðholt (Bakkar, Stekkir, og Mjódd).

Í vestur markast hverfið af Reykjanesbraut. Í norður og austur markast hverfið af Elliðaám, syðri kvísl. Í suður markast hverfið af sveitarfélagamörkum Kópavogs.

Flestar verslanir og þjónusta eru staðsettar í Mjódd en einnig er verslunarkjarni í Efra-Breiðholti sem nefnist Hólagarður. Í Breiðholti eru 5 grunnskólar: Breiðholtsskóli, Seljaskóli, Ölduselsskóli, Fellaskóli og Hólabrekkuskóli og einn framhaldsskóli: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Þjónustumiðstöð Breiðholts veitir íbúum og starfsfólki í stofnunum margvíslega þjónustu. Í hverfinu eru fjórar kirkjur: Breiðholtskirkja, Seljakirkja, Fella- og Hólakirkja og Maríukirkja.

Meðal annarra stofnana er eitt útibú Borgarbókasafns í Reykjavík sem staðsett er í Menningarhúsinu Gerðuberg. Í Breiðholti er einnig að finna félagsmiðstöðvarnar Miðberg hundrað og ellefu Bakkinn og Hólmasel.

Í hverfinu eru starfrækt þrjú íþróttafélög: Íþróttafélag Reykjavíkur, Íþróttafélagið Leiknir og Sundfélagið Ægir. Breiðholtslaugin er við Austurberg.

Skátafélögin eru Hafernir og Segull.

Saga

Þar sem Breiðholt stendur núna stóð bærinn Breiðholt. Þegar Guðni Símonarson, sem hafði búið um langt skeið í Breiðholti, brá búi árið 1922 komu leigumál jarðarinnar nokkrum sinnum til umræðu á bæjarstjórnarfundum, því jörðin var eign bæjarins. Það var síðan ákveðið sama ár að Sveinn Hjartarson bakari fengi jörðina til umráða til þriggja ára.[1]

Breiðholt var um tíma helsta berjaland Reykjavíkurbúa. Þar var einnig seld hagaganga.[2]

Uppbygging íbúðahverfis

Íbúðabyggð í Breiðholti í þeirri mynd sem þekkist í dag á rætur að rekja til hins svokallaða Júnísamkomulags verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda sem gert var í júní árið 1964. Í samkomulaginu fólst að í kjarasamningum yrði samið um ýmsar félagslegar umbætur í stað beinna launahækkana. Á þetta reyndi ári seinna þegar erfiðar kjaraviðræður stóðu yfir. Mikill húsnæðisskortur var í Reykjavík og sérstaklega erfitt ástand var á leigumarkaði og bjó margt fólk við erfiðar aðstæður í hrörlegu húsnæði víða um borgina. Úr varð að stjórnvöld, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur tóku höndum saman og ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að ráðist yrði í stórfelldar umbætur í húsnæðismálum og byggðar yrðu 1250 íbúðir á næstu 5 árum. Íbúðir í Breiðholti urðu alls um það bil 7600 og því var stór hluti íbúða hverfisins byggður fyrir tilstilli samkomulagsins. Með uppbyggingu Breiðholtshverfisins náðist að útbrýma braggahverfum í Reykjavík og tryggja tekjulágu fólki öruggt húsnæði.[3]

Í Breiðholti hefur þróast blönduð byggð íbúðarhúsnæðis og er þar að finna fjölbýlishús, raðhús og einbýlishús.

Þjónusta

  • Leikskólar eru 11 talsins
  • Skólar eru 5 talsins
  • Sundlaugar eru 1 talsins

Tenglar

Tilvísanir

  1. Í Morgublaðinu 1922 segir að það hafi verið „gegn 1180 króna eftirgjaldi á ári“.
  2. Í auglýsingu í Morgunblaðinu árið 1928, segir: Hagaganga fyrir kýr í Breiðholtslandi á að kosta 200 krónur fyrir sumartímann.
  3. „Þegar byggt var í Breiðholti“, Morgunblaðið, 26. febrúar 2002 (skoðað 27. júní 2019)